Damien Rice, Emilíana Torrini og Magni í Bræðslunni í sumar

Tónlistarhátíðin Bræðslan verður haldin á Borgarfirði helgina 25. - 27. júlí í sumar.  Þetta verður í fjórða sinn sem hátíðin verður haldin en undanfarin ár hafa komið þar fram Emilíana Torrini, Belle & Sebastian, Magni, Megas og Senuþjófarnir, Lay Low, Aldís og Jónas Sigurðsson.  Bræðslan hefur vakið mikla lukku þau 3 ár sem hún hefur verið haldin og hafa um 1.000 manns sótt hana að jafnaði.  Íbúafjöldi Borgarfjarðar Eystri telur um 150 manns og því hefur verið um töluverða margföldun að ræða þessa helgi í þorpinu.  Tónlistarhátíðin Bræðslan dregur nafn sitt af gamalli síldarbræðslu Borgfirðinga þar sem tónleikar hátíðarinnar fara fram í ansi skemmtilegri umgjörð.

Það er Bræðslunni mikill heiður að uppljóstra um dagskrána í sumar því hún er ekki af verri endanum.

Írska söngvaskáldið Damien Rice hefur boðað komu sína en Damien ætti að vera allnokkrum íslendingum að góðu kunnur enda komið hingað þrisvar til tónleikahalds.  Tvisvar hefur Damien spilað fyrir troðfullu húsi á NASA og svo tók hann þátt í náttúrutónleikunum í Laugardalshöll á sínum tíma.  Damien hefur gefið út tvær plötur á ferlinum sem selst hafa í miljónum eintaka og því um mikinn hvalreka að ræða fyrir Bræðsluna.

Emilíana Torrini ætlar að koma fram á Bræðslunni í sumar.  Emilíana er að hluta til ábyrg fyrir því að Bræðslan fór af stað á sínum tíma því hún kom fram fyrsta árið sem hún var haldin og svo einnig árið eftir og þá dró hún Belle & Sebastian með sér.  Emilíana tók sér frí í fyrra en mætir nú aftur í Bræðsluna galvösk.  Emilíana er búin að helga tíma sínum undanfarið við upptökur á nýrri plötu sem væntanleg er á þessu ári.

Magni kemur einnig fram í Bræðslunni í sumar.  Magni er íslendingum að sjálfsögðu vel kunnur sem forsprakki Á móti sól og ekki síst fyrir þátttöku sína í Rockstar Supernova.  Magni er fæddur og uppalinn á Borgarfirði Eystri og hefur verið einn af skipuleggjendum hátíðarinnar með Áskeli Heiðari bróður sínum.  Magni mun að öllum líkindum koma fram einn síns liðs í Bræðslunni í sumar.

Fyrirkomulag forsölu á Bræðsluna verður kynnt von bráðar en dagskráin og helgin er ljós þannig að fólk getur farið að taka helgina frá.
 
tekið af: http://www.borgarfjordureystri.is 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband